Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál 112/2014

Mál nr. 112/2014

Fimmtudaginn 8. desember 2016

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.

Þann 24. nóvember 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A, og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 7. nóvember 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 28. nóvember 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 4. mars 2015.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 18. mars 2015 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust með bréfi 31. mars 2015. Þær voru sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 1. apríl 2015 og óskað eftir afstöðu embættisins. Framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara barst með bréfi 14. apríl 2015. Hún var send kærendum með bréfi 30. apríl 2016 og þeim gefinn kostur á að koma að andmælum. Frekari andmæli bárust ekki.

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1975 og 1974. Þau eru í hjúskap og búa ásamt X börnum sínum í eigin fasteign að C sem er 245 fermetra einbýlishús. Börnin eru fædd á árunum 1996-2003.

Kærandi A er [...] hjá D en kærandi B starfar sem sjálfstæður verktaki í [...].

Heildarskuldir kærenda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 7. nóvember 2014, eru 66.729.042 krónur.

Kærendur sóttu um greiðsluaðlögun 16. september 2010. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 16. maí 2011 var kærendum veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Umboðsmanni skuldara barst bréf umsjónarmanns 3. júní 2013 þar sem lagt var til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður á grundvelli 15. gr. lge., sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. og d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Að mati umsjónarmanns hefðu kærendur látið undir höfuð leggjast að greiða virðisaukaskatt vegna sjálfstæðs reksturs kæranda B og með því stofnað til nýrra skulda á tímabili greiðsluaðlögunar. Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 11. september 2013 þar sem þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós og leggja fram gögn máli sínu til stuðnings. Svör kærenda bárust 19. september 2013 sem og afrit af leiðréttingarskýrslum virðisaukaskatts. Kærendur kváðu að vanskil þeirra á virðisaukaskatti hefði mátt rekja til veikinda kæranda B og að skuldsetningin hefði verið nauðsynleg til framfærslu fjölskyldunnar. Með tölvupósti umboðsmanns skuldara 8. október 2013 var kærendum tilkynnt að virðisaukaskattskuldir stæðu enn í vegi fyrir áframhaldandi greiðsluaðlögunarumleitunum. Þann 10. október 2013 skiluðu kærendur inn afriti af uppfærðri stöðu virðisaukaskattskuldar. Höfuðstóll hennar var þá 790.453 krónur samkvæmt yfirliti Tollstjóra 11. október 2013 og veitti umboðsmaður skuldara kærendum í kjölfarið heimild til áframhaldandi greiðsluaðlögunarumleitana með bréfi 18. október 2013.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 25. september 2014 lagði umsjónarmaður til á ný að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Samkvæmt upplýsingum frá Sýslumanninum í E 23. september 2014 hefði kærandi B hvorki greitt virðisaukaskatt árið 2014 né staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir árið 2013. Heildarskuldir hans vegna virðisaukaskatts hafi numið 1.922.927 krónum og 388.744 krónum vegna staðgreiðslu. Þá hafi ógreidd þing- og sveitarsjóðsgjöld hans numið samtals 439.071 krónu. Umsjónarmaður taldi þannig að í ljósi þessara upplýsinga að d-liður 2. mgr. 6. gr., d-liður 1. mgr. 12. gr. og b-liður 1. mgr. 6. gr. lge., ættu við í máli kærenda.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 14. október 2014 þar sem þeim var kynnt framkomin tillaga umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunar-umleitanir þeirra. Þá var kærendum jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tiltekins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Kærendur höfðu samband símleiðis við umboðsmann skuldara 23. október 2014 og sendu embættinu gögn 5. nóvember 2014.

Með bréfi til kærenda 7. nóvember 2014 felldi umboðsmaður skuldara í framhaldinu greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður með vísan til 15. gr., sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. og d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur kveðast vera ósáttir við ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunar. Þau telji ákvörðun embættisins ranga og vilji að málið verði tekið fyrir hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála. Skilja verður kæru þeirra svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra verði felld úr gildi.

Í kæru er greint frá forsögu málsins og aðstæðum kærenda. Fram kemur að þau hafi sótt um heimild til að leita greiðsluaðlögunar árið 2010 og frá þeim tíma hafi þau beðið eftir að samningur um greiðsluaðlögun yrði gerður. Þá hafi kærandi B verið óvinnufær árið 2012 vegna veikinda. Veikindi hans hafi sett fjármál heimilisins úr skorðum, enda hafi ekki verið hægt að greiða alla reikninga á meðan. Á þessum tíma hafi safnast upp skuldir hjá kærendum vegna fasteignagjalda, virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda. Í september 2013 hafi umboðsmaður skuldara sent kærendum bréf og tilkynnt að fyrirhugað væri að fella niður greiðsluaðlögunar-umleitanir þeirra. Frá því hafi verið fallið í kjölfar skýringa kærenda á skuldasöfnun þeirra sem rekja mátti til veikinda kæranda B. Frá þeim tíma hefðu kærendur ekki safnað nýjum skuldum svo neinu næmi. Í október 2014 hefðu kærendur svo fengið bréf frá umboðsmanni skuldara þar sem skorað var á þau að gefa skýringar á því hvers vegna skuldir hefðu safnast upp að nýju. Aftur hefði verið brugðist við áskorun umboðsmanns skuldara og greiddar upp nánast allar gjaldfallnar skuldir fyrir árið 2014, eða yfir 600.000 krónur. Þá hefðu kærendur greitt upp vanskil vegna fasteignagjalda. Mjög litlar skuldir hefðu safnast fyrir hjá kærendum árin 2013 og 2014 og sé fyrirhugað að standa skil á þeim öllum á næstu misserum.

Það hafi því komið kærendum í opna skjöldu þegar þeim var tilkynnt að heimild þeirra til greiðsluaðlögunar hefði verið felld úr gildi. Í bréfinu hafi því verið borið við að skuldir hefðu safnast upp, en að mati kærenda var það ekki meira en safnaðist upp í veikinum kæranda B árin 2011 til 2013. Kærendur hefðu greitt uppsafnaðan virðisaukaskatt að langmestu leyti og komið fasteignagjöldum í skil. Í bréfi umboðsmanns skuldara frá því í október 2014 hafi einnig verið óskað upplýsinga um sparnað kærenda. Þau hafi þá upplýst að þau ættu engan sparnað þar sem hann hefði farið í að greiða skuldir sem safnast hefðu upp frá árinu 2011 vegna fyrrnefndra veikinda.

Kærendur telja hina kærðu ákvörðun ranga þar sem einvörðungu hafi verið litið til þess að skuldir hefðu safnast upp frá árinu 2010 án þess að taka tillit til sjónarmiða þeirra.

Kærendur byggja jafnframt á því að umboðsmaður skuldara hafi þegar fallist á sjónarmið þeirra sem fram komu í bréfi haustið 2013, en embættið hafi þar samþykkt að eðlilegar ástæður lægju að baki því að skuldir hefðu safnast upp. Í ljósi ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993 geti umboðsmaður skuldara ekki tekið aftur ákvörðun sína, enda yrði það íþyngjandi fyrir kærendur.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í 1. mgr. 12. gr. lge. séu tilgreindar skyldur skuldara við greiðsluaðlögun þegar frestun greiðslna stendur yfir. Í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. segi að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað er til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.

Samkvæmt kröfulýsingum frá E sem liggi fyrir í gögnum málsins hafi kærendur vanrækt að greiða fasteignagjöld allt frá árinu 2008. Samtals hafi 1.285.481 króna verið í löginnheimtu vegna vangreiddra fasteignagjalda en auk þess hafi kærendur verið í vanskilum með fasteignagjöld frá árinu 2014, sem nú hafi verið gerð upp, fyrir utan einn gjalddaga. Ljóst sé því að kærendur hafi stofnað til skulda vegna fasteignagjalda á tímabilinu, þrátt fyrir að hafa greitt þau í kjölfar bréfs umboðsmanns skuldara 14. október 2013, fyrir utan 22.257 krónur vegna októbermánaðar 2013.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi B einnig stofnað til skuldar vegna vangoldins áætlaðs virðisaukaskatts árið 2014 sem rekja megi til rekstrar hans á eigin kennitölu. Skuldin, sem falli utan greiðsluaðlögunar, sbr. f-lið 1. mgr. 3. gr. lge., hafi numið 660.690 krónum samkvæmt yfirliti 10. október 2014. Kærandi B hafi lagfært áætlanir og greitt inn á skuldina sem enn hafi þó numið 69.042 krónum. Enn fremur hafi hann látið hjá líða að greiða staðgreiðslu vegna reiknaðs endurgjalds að fjárhæð 219.976 krónur vegna ársins 2014, auk þess sem alls 401.712 krónur hafi verið ógreiddar vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda 2014. Skuldir kæranda B vegna opinberra gjalda árið 2014 hafi því numið samtals 690.730 krónum.

Kærandi B hafi enn fremur stofnað til skulda vegna vangoldinna opinberra gjalda árin 2011 og 2012. Nánar tiltekið hafi hann stofnað til skuldar vegna vangoldins tryggingargjalds árin 2011-2013, samtals að fjárhæð 394.060 krónur, og vegna vangoldins virðisaukaskatts árin 2011-2012, samtals að fjárhæð 828.982 krónur. Kærendur hafi verið í greiðsluskjóli frá 2010 og hafi kærandi B því stofnað til skulda með því að greiða ekki opinber gjöld, samtals að fjárhæð 1.519.712 krónur á því tímabili.

Auk þess er að framan greinir hafi kærandi B stofnað til skuldar vegna vangoldinna iðgjalda samkvæmt yfirliti frá Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda. Skuld vegna iðgjalda ársins 2008 að fjárhæð 805.756 krónur sé í innheimtu hjá Lögheimtunni ehf., auk þess sem kærandi skuldi iðgjöld vegna ársins 2010 að fjárhæð 229.936 krónur. Þá hafi hafi hann enn fremur stofnað til skulda vegna vangoldinna iðgjalda á tímabili greiðsluskjóls vegna áranna 2011, 2012 og 2013, samtals að fjárhæð 574.915 krónur.

Til viðbótar þessu hafi kærendur ekki greitt reikninga frá F vegna júní og júlí 2014 sem séu í innheimtu hjá Motus ehf. að fjárhæð 16.813 krónur.

Samkvæmt ofangreindu hafi kærendur stofnað til skulda á tímabili greiðsluskjóls sem nemi alls 2.133.697 krónum.

Í 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana. Samkvæmt d-lið ákvæðisins sé heimilt að synja um heimild til að leita greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu.

Samkvæmt 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda geti meðal annars verið lögð refsing við því að skila ekki inn á lögmæltum tíma virðisaukaskatti og öðrum opinberum gjöldum. Skylt sé að greiða í lífeyrissjóð samkvæmt lögum um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda nr. 155/1998 og lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997 og geti brot á þeirri skyldu varðað refsingu samkvæmt 55. gr. laga nr. 129/1997.

Samkvæmt yfirliti Tollstjóra frá 7. nóvember 2014 hafi skuldir kærenda vegna vangoldins virðisaukaskatts numið alls 1.281.713 krónum og skuld vegna vangoldinnar staðgreiðslu 219.976 krónum. Kærandi B hafi einnig látið undir höfuð leggjast að greiða iðgjöld til Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda, samtals að fjárhæð 1.610.607 krónur.

Samkvæmt framangreindu yfirliti nemi skuldir kæranda B vegna vangoldins virðisaukaskatts, staðgreiðslu reiknaðs endurgjalds og iðgjalda til Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda eftirgreindum fjárhæðum í krónum:

Virðisaukaskattur 2010 til 2014 1.281.713
Staðgreiðsla vegna reiknaðs endurgjalds 2014 219.976
Lífeyrisiðgjöld 2008 til 2013 1.610.607
Samtals 3.112.296

Ofangreindar skuldir kærenda falli undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. og standi jafnframt utan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. f-lið 1. mgr. 3. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara verði ekki hjá því komist að telja að með hátterni sínu hafi kærendur stofnað til nýrra skuldbindinga sem skaðað hafi hagsmuni kröfuhafa samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Að sama skapi verði að telja að þær skuldir sem falla undir ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., samtals 3.112.296 krónur, nemi allhárri fjárhæð, eða u.þ.b. 4,6% af heildarskuldum kærenda.

Kærendum hafi verið veitt heimild til áframhaldandi greiðsluaðlögunarumleitana 18. október 2013 í kjölfar þess að tilkynning barst frá umsjónarmanni um að þau hefðu stofnað til nýrra skulda á tímabili greiðsluskjóls. Kærendum hafi þá verið leiðbeint um að ekki væri heimilt að stofna til nýrra skulda á því tímabili, en ákvörðun um áframhaldandi greiðsluaðlögunarumleitanir hafi verið tekin á grundvelli þess að tekjur kærenda voru mjög lágar vegna fyrrgreindra veikinda. Greiðslugeta kærenda hafi verið jákvæð, í það minnsta frá upphafi árs 2013 um u.þ.b. 100.000 krónur á mánuði, sé einnig reiknað með hreinum tekjum af eigin atvinnurekstri kæranda B samkvæmt framtölum og framlögðu yfirliti um rekstur.

Miðað við meðaltekjur kærenda hafi greiðslugeta þeirra verið eftirfarandi í krónum á neðangreindu tímabili:

Greiðslugeta kærenda
2011 -98.550*
2012 -101.424
2013 104.316
2014 123.002**

*Miðað er við tekjur kæranda A frá júní til desember en meðaltekjur kæranda B yfir árið, þar sem ekki lágu fyrir upplýsingar um mánaðarlegar tekjur hans samkvæmt staðgreiðsluskrá.
** Miðað við tímabilið janúar til ágúst þar sem ekki lágu fyrir upplýsingar um tekjur annars kæranda eftir þann tíma.

Kærendur hafi greitt 660.723 krónur inn á virðisaukaskattskuldir sem safnast hefðu upp árið 2014. Einnig hafi kærendur gert upp vangoldin fasteignagjöld að mestu leyti.

Kærendur hafi engu að síður stofnað til skulda á árinu 2014 og telji umboðsmaður skuldara yfir allan vafa hafið að kærendur hafi brotið gegn d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að stofna til skulda og láta hjá líða að greiða opinber gjöld þrátt fyrir að geta greitt þau.

Samvæmt skuldayfirliti frá Tollstjóra 4. mars 2015 hafi kærendur látið undir höfuð leggjast að greiða eftirfarandi gjöld vegna ársins 2014:

Virðisaukaskatt 333.650
Staðgreiðslu launagreiðanda 227.725
Staðgreiðslu tryggingargjalds 162.026
Þing- og sveitarsjóðsgjöld 520.829
Samtals 1.244.230

Kærendum hafi verið gefið færi á að standa við greiðslu ofangreindra gjalda meðan á greiðsluaðlögunarumleitunum stóð en það hafi þau ekki gert samkvæmt framangreindu. Ekki sé hægt að réttlæta skuldasöfnun þessa með því að öllum tekjum kærenda hafi verið varið til að greiða uppsafnaðar skuldir þar sem bæði hafi verið gert ráð fyrir greiðslu fasteignagjalda í greiðsluáætlun, auk þess sem almennt megi gera ráð fyrir staðgreiðslu launa og virðisaukaskatts áður en reiknað endurgjald og hagnaður af rekstri sé greiddur út sem tekjur.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

Umboðsmaður skuldara hafnar því að embættið hafi tekið til baka eða breytt ákvörðun sem beindist að kærendum. Skýrt hafi komið fram að hin kærða ákvörðun byggðist á háttsemi kærenda sem og öðrum atvikum árið 2014, en ekki þeim atvikum sem embættið hafði þegar tekið afstöðu til með ákvörðun um að veita kærendum heimild til áframhaldandi greiðsluaðlögunarumleitana 18. október 2013.

IV. Niðurstaða

Við meðferð greiðsluaðlögunarmáls kærenda hjá umboðsmanni skuldara barst embættinu tillaga umsjónarmanns með bréfi 3. júní 2013 þar sem lagt var til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður. Eftir að umboðsmaður skuldara hafði lagt mat á aðstæður kærenda var ekki fallist á framangreinda tillögu umsjónarmanns og ákvörðun um að kærendum skyldi veitt áframhaldandi greiðsluaðlögun tekin 18. október 2013.

Kærendur byggja á því að umboðsmaður skuldara hafi þegar fallist á sjónarmið þeirra um að eðlilegar skýringar lægju að baki uppsafnaðra skulda þegar heimild til áframhaldandi greiðsluaðlögunarumleitana var veitt með framangreindri ákvörðun. Kærendur telja að í ljósi ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993 geti embættið ekki tekið aftur þá ákvörðun, enda væri það íþyngjandi fyrir þau.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um að veita kærendum áframhaldandi greiðsluaðlögun var greint frá því að umsjónarmaður hefði með tilkynningu til umboðsmanns skuldara 3. júní 2013 lagt til að greiðsluaðlögunumleitanir kærenda yrðu felldar niður á grundvelli 15. gr. lge., sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. og d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Umsjónarmaður taldi að kærendur hefðu frá því að þau sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar látið undir höfuð leggjast að greiða virðisaukaskatt vegna sjálfstæðs reksturs kæranda B og hefðu með því stofnað til nýrra skuldbindinga á tímabili greiðsluaðlögunar. Skuld kæranda B vegna virðisaukaskatts og vangoldinnar staðgreiðslu næmi samanlagt 1.653.499 krónum og 193.919 krónum vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda. Í samræmi við 15. gr. lge. kallaði umboðsmaður skuldara eftir afstöðu kærenda og bárust skýringar þeirra ásamt afritum af leiðréttingarskýrslum vegna virðisaukaskatts í framhaldinu.

Umboðsmaður skuldara tók þá afstöðu til tillögu umsjónarmanns með rökstuddri ákvörðun 18. október 2013. Í ákvörðuninni kemur fram að kærendur hefðu upplýst um tildrög virðisaukaskattskuldarinnar og skilað inn framangreindum leiðréttingar-skýrslum, auk þess sem þau hefðu greitt niður hluta hennar. Þá hefðu kærendur skilað inn afriti af uppfærðri stöðu skuldarinnar sem næmi 790.453 krónum fyrir utan vexti og kostnað. Umboðsmaður skuldara taldi rétt að leggja hinar nýju upplýsingar til grundvallar og heimila kærendum áframhaldandi greiðsluaðlögunarumleitanir. Að mati umboðsmanns skuldara þótti líklegt að kærendur gætu greitt upp framangreinda virðisaukaskattskuld en hún félli utan samnings um greiðsluaðlögun. Jafnframt þótti ekki rétt, að teknu tilliti til veikinda kæranda B, að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar, heldur skyldi veita þeim færi á að leita samninga við kröfuhafa sína.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara 18. október 2013 varðar aðeins tímabilið frá því að kærendur fóru í greiðsluskjól til þess tíma er framangreind ákvörðun var tekin. Hin kærða ákvörðun er hins vegar byggð á því að kærendur hafi ekki gætt ákvæða d-liðar 2. mgr. 6. gr. og d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. á lengra tímabili, eða allt þar til hin kærða ákvörðun var tekin 7. nóvember 2014. Hér kemur því ekki til álita að telja að umboðsmaður skuldara hafi þegar fallist á sjónarmið kærenda um að uppsafnaðar skuldir þeirra ættu sér eðlilegar skýringar, enda lágu ekki sömu forsendur að baki hinni kærðu ákvörðun og þær sem lagðar voru til grundvallar þegar heimild til áframhaldandi greiðsluaðlögunarumleitana var veitt með ákvörðun 18. október 2013. Jafnframt er því hafnað með sömu röksemdum að umboðsmaður skuldara hafi afturkallað ákvörðunina frá 18. október 2013, eins og kærendur halda fram.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. og d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til að leita greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu, sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans, með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu. Þá segir í 15. gr. lge. að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Meðal þeirra atriða sem þar falla undir er d-liður 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 skal sá, sem er skattskyldur og hefur innheimt virðisaukaskatt en stendur ekki skil á honum af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi á lögmæltum tíma, greiða fésekt sem nemur allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem ekki var greidd og aldrei lægri en sem nemur tvöfaldri þessari fjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt þessu ber skattskyldum aðila að sjá til þess að virðisaukaskattur sé greiddur að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu.

Að því er varðar ofangreindar virðisaukaskattskuldir verður að líta til þess að ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem leitt geta til refsingar girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hefur verið staðfest með dómi, að því tilskildu að skuldbindingin nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara.

Eins og sjá má af framangreindu ber skattskyldum aðila að sjá til þess að vörsluskattar séu greiddir að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu. Frá þessu eru ekki undanþágur. Ofangreind ákvæði eiga því við um kæranda B.

Samkvæmt yfirliti frá Tollstjóra frá 7. nóvember 2014 var kærandi B í vanskilum með eftirtalin gjöld vegna áranna 2010 til 2014 í krónum:

2010 2011 2012 2013 2014 Alls
Virðisaukaskattur 383.687 419.625 409.357 0 69.042 1.281.711
Staðgreiðsla launa 219.976 219.976
Samtals 1.501.687

Vörsluskattskuldir kæranda B námu alls 1.501.687 krónum með vöxtum á framangreindu tímabili. Í ljósi ákvæðis d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. og eðli málsins samkvæmt verður ekki hjá því komist að líta á allt tímabilið vegna vanskila á fyrrgreindum sköttum. Með því að láta hjá líða að standa skil á þeim hefur kærandi B bakað sér skuldbindingu með refsiverðri háttsemi í skilningi d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., samkvæmt fortakslausum ákvæðum 2. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Samkvæmt lögum um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda nr. 155/1998 og lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997 er skylt að greiða í lífeyrissjóð og geta brot á þeirri skyldu varðað refsingu í samræmi við 55. gr. laga nr. 129/1997, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987. Af gögnum málsins er ljóst að ógreidd lífeyrisiðgjöld kæranda B nema 1.610.607 krónum.

Samkvæmt yfirliti frá Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda frá 7. nóvember 2014 var kærandi B í vanskilum með eftirtalin gjöld vegna áranna 2008 til 2013 í krónum:

2008 2010 2011 2012 2013 Alls
Lífeyrisiðgjöld 805.756 229.936 227.529 96.989 250.397 1.610.607

Að mati kærunefndarinnar ber hér að líta til þess að lífeyrisiðgjöld eru greiðsla í sjóði sem ætlaðir eru til samneyslu eða samtryggingar, en slíkar skuldir falla ekki undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge.

Með því að láta hjá líða að skila lífeyrisiðgjöldum hefur kærandi B því bakað sér skuldbindingu með refsiverðri háttsemi í skilningi d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., samkvæmt fortakslausum ákvæðum 55. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997.

Samkvæmt framansögðu hefur kærunefndin í máli þessu ekki annað svigrúm til mats á þeim aðstæðum er tilgreindar eru í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. en að kanna hvort skuldir vegna vörsluskatta og lífeyrisiðgjalda, sem kærandi B stofnaði til, nemi einhverju miðað við fjárhag kærenda. Við það mat telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu kærenda sem og tekjur þeirra og greiðslugetu. Samkvæmt gögnum málsins er eignastaða kærenda neikvæð um tæplega 30.000.000 króna. Á sama tíma nema tekjur þeirra alls 561.104 krónum á mánuði að meðaltali. Samkvæmt gögnum málsins eru heildarskuldir kærenda 66.729.042 krónur. Skuldir sem kærandi B hefur stofnað til með framangreindri háttsemi og greint er frá í hinni kærðu ákvörðun nema sem fyrr segir samtals 3.112.294 krónum með vöxtum eða 4,6% af heildarskuldum kærenda. Að mati kærunefndarinnar eru þetta skuldir sem telja verður allháar, en þær falla ekki undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f–lið 1. mgr. 3. gr. lge. Þá hefur kærandi B stofnað til þessara skulda með háttsemi er varðar refsingu eins og tiltekið er hér að framan.

Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 var skuldara synjað um nauðasamning til greiðsluaðlögunar vegna vangreiddra vörsluskatta. Komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að skuldari, sem bakað hafði sér skuldbindingu að fjárhæð 1.780.437 krónur sem nam um 8,3% af heildarskuldum hans með háttsemi er varðaði refsingu, hefði skapað sér skuldbindingu sem einhverju næmi og því bæri að synja honum um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Í ofangreindu dómsmáli var skuldin til komin vegna persónulegrar starfsemi skuldarans. Kærunefndin telur að hið sama eigi við hvort sem gjaldandinn er einstaklingur eða lögaðili, enda er lagaskylda manns til að skila vörslusköttum í ríkissjóð sú sama hvort sem hann er sjálfur gjaldandi eða gjaldandinn er lögaðili sem hann er í fyrirsvari fyrir.

Það er því mat kærunefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu, með tilliti til þess sem rakið hefur verið og með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, að þær skuldir kæranda B, sem stofnað hefur verið til með framangreindum hætti, falli undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. og að þær verði að teljast verulegar miðað við fjárhag kærenda þannig að ekki sé hæfilegt að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að fella niður heimild kærenda til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til 1. mgr. 15. gr., sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Þá byggðist hin kærða ákvörðun á því að kærendur hefðu stofnað til nýrra skulda á tímabili greiðsluskjóls og hefðu því farið í bága við skyldur sínar samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 128/2010, hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun, en í þessu tilviki við gildistöku laga nr. 128/2010. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kærendum því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir gildistöku laga nr. 128/2010, 18. október 2010.

Í 12. gr. lge. er mælt fyrir um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun. Samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir á tímabili greiðsluskjóls sem skaðað gætu hagsmuni lánardrottna nema sú skuldbinding sem stofnað er til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum stofnuðu kærendur til skulda vegna vanskila á lífeyrisiðgjöldum á tímabili greiðsluskjóls að fjárhæð 574.915 krónur sem er skuld vegna áranna 2011, 2012 og 2013, auk þing- og sveitarsjóðsgjalda að fjárhæð 401.712 krónur vegna ársins 2014. Kærendum bar að greiða opinber gjöld sem féllu til á tímabilinu, enda nær frestun greiðslna ekki til krafna sem verða til eftir að heimild til að leita greiðsluaðlögunar hefur verið veitt, sbr. 3. mgr. 11. gr. lge. Að mati kærunefndarinnar hafa kærendur þannig með háttsemi þessari stofnað til nýrra skulda í skilningi d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Kærunefndin fellst því á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara þess efnis að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt lagaákvæðinu.

Í ljósi þessa verður að líta svo á að kærendur hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna.

Með vísan til alls þess er greinir hér að framan er hin kærða ákvörðun staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild A og B til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum